Nánar um keppnina

Hvað er Tour de Ormurinn?
Tour de Ormurinn er hjólreiðakeppni í sveitarfélögunum Múlaþingi og í Fljótsdalshreppi.  Tour de Ormurinn hóf göngu sína árið 2012 og hefur keppandafjöldi farið stigvaxandi síðan þá.

Hjólaleiðir eru þrjár.  68 km hringur, 103 km hringur og svo 26km leið.  Keppnin er opin öllum 14 ára og eldri. Hjólað er umhverfis Löginn í styttri hringnum en inn í botn Fljótsdals í þeim lengri.  Startað er á Egilsstöðum.  Einnig er boðið upp á 26km leið sem hefst í Hallormsstað.  Endamark er staðsett á Egilsstöðum. Mikil áhersla er lögð á öryggismál, unnið er í góðu samstarfi við lögregluna. Fjöldi sjálfboðaliða kemur að framkvæmd keppninnar og hafa skipuleggendur keppninnar fengið mikið hrós frá þátttakendum fyrir öfluga og sýnilega brautarvörslu. Metnaður er lagður í að umgjörð keppninnar beri austfiskri menningu, sögu og náttúru glöggt vitni og hafa verðlaun til keppenda tekið mið að því og vakið verðskuldaða athygli.

Hægt er að kynna sér leiðirnar nánar hér

Markmið Tour de Ormsins:
Markmið keppninnar er að stuðla að aukinni hjólreiðamenningu á svæðinu og vekja íbúa þess til umhugsunar um gildi hjólreiða sem vistvæns, hagkvæms og heilsusamlegs ferðamáta. Að auki vekja athygli á gildi hreyfingar og útivistar í fallegu umhverfi og vera bæði hvatning og hvati til heilbrigðra lífshátta og hreyfingar. Það er stefna okkar og framtíðarmarkmið að markaðssetja keppnina bæði innanlands og utan, enda langtímamarkmið okkar að byggja upp árvissa alvöru hjólreiðakeppni sem dregur til sín gesti og þátttakendur frá öllum lands- og heimshornum.

Upphafsstaður og endamark: Egilsstaðir.  26km leiðin hefst í Hallormsstað

Athugið: Upplýsingum verður komið á framfæri á facebook síðu keppninnar www.facebook.com/tourdeormurinn

Vinsamlegast skoðið vel reglur keppninnar.


Umsagnir keppenda, tekið af facebook síðu Tour de Ormsins:

Harpa Mjöll Hermannsdóttir
Tour de ormurinn er ein af mínum skemmtilegustu keppnum sem ég hef tekið þátt í. Keppnisleiðin er frábær, bæði með brekkum og flötum köflum og brautargæsla og utanumhald til fyrirmyndar.
Ekki skemmir líka hvað brautin er falleg.
Ég er austfirðingur og því finnst mér sérstaklega vænt um að koma á Hérað og geta tekið þátt í svona skemmtilegri keppni.

Þorbergur Ingi Jónsson (Brautametshafi 2022)
Virkilega falleg og skemmtileg braut með nokkrum rúllandi brekkum. Brautarvarsla og umgjörð var algjörlega til fyrirmyndar svo ég mæli svo sannarlega með þessari keppni.

Þorvaldur Daníelsson (Valdi í Hjólakrafti)Mæli með þessari keppni – frábært utanumhald hjá þeim fyrir austan – brautarvarsla á heimsmælikvarða, skemmtileg verðlaun og brautin, eða leiðin, sem hjóluð er alveg hreint ótrúlega falleg og fjölbreytt. Það er mikil hæð í þessu.

Guðrún Sigurðardóttir, keppandi 2014: Takk fyrir skemmtilega keppni í ólýsanlega fallegu umhverfi. Umgjörðin var meiriháttar og það er klárt mál að ég hef aldrei, ALDREI tekið þátt í keppni með jafnt FRÁBÆRA brautarvörslu. Takk fyrir mig, alveg innilega

TEAM Bjarg, keppendur 2012 : Þökkum frábæran hjóladag. Flott skipulag hjá ykkur og
þrælskemmtilega hjólaleið.